Viðskipti innlent

Íbúðaverð hækkar enn

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ingólfur Bender, forstöðumaður Greiningadeildar Glitnis.
Ingólfur Bender, forstöðumaður Greiningadeildar Glitnis.

Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 1,4% milli júní og júlí. Það sem af er ári hefur íbúðaverð hækkað um 11,7%, þar af hefur verð á fjölbýliseignum hækkað um 11,4% og á sérbýliseignum um 12,5%.

Greiningadeild Glitnis segir að hækkunina á milli júní og júlí megi alla rekja til verðhækkunar á fjölbýliseignum sem hækkaði um 1,9% milli mánaða. Töluverðar sveiflur geta verið á verðþróun milli mánaða enda eignir mismunandi. Í júní lækkaði verð á fjölbýliseignum lítillega frá maí og verð á sérbýliseignum hækkaði um 3,7% á sama tímabili.

Glitnir segir að aðstæður til húsnæðiskaupa hafi verið hagstæðar á árinu. Gott aðgengi að lánsfjármagni, hraðar launahækkanir, hátt atvinnustig og lítið atvinnuleysi geri það að verkum að auðvelt sé fyrir einstaklinga að fjármagna húsnæðiskaup. Umsvif á fasteignamarkaði hafi sjaldan verið meiri en á fyrri hluta sumars.

Þá segir Glitnir að áhugavert verði að sjá hver áhrif af innlendri eignaverðslækkun og skörp gengislækkun krónunnar undanfarna daga verði á íbúðamarkaðinn. Líklegt sé að það slái aðeins á eftirspurnina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×