Viðskipti innlent

Stærsta yfirtaka Íslandssögunnar

Þessa stundina er verið að handsala stærstu yfirtöku Íslandssögunnar þegar Kaupþing kaupir hollenska bankann NIBS fyrir þrjá milljarða evra eða 270 milljarða króna.

Að sögn talsmanna Kaupþings er hér um að ræða stærstu viðskipti Íslandssögunnar sem eiga sér stað í einum viðskiptagjörningi. Starfsemi NIBC þykir falla einkar vel að starfsemi Kaupþings, hvort heldur sem litið er til landfræðilegrar dreifingar, vöruframboðs eða fyrirtækjamenningar.

NIBC er fyrirtækjabanki, sem var stofnaður 1945. Hjá bankanum starfa 718 manns og er hann með starfstöðvar í Haag, Lundúnum, Brussel, Frankfurt, New York og Singapúr. Seljandi er fjárfestahópur undir forystu J.C. Flowers & Co. LLC.

Kaupþing greiðir seljanda hluta af kaupverðinu með útgáfu nýrra hlutabréfa að verðmæti 1360 milljónir evra. Í framhaldinu verður seljandinn næststærsti hluthafinn í Kaupþingi.

Samkvæmt upplýsingum frá Kaupþingi eiga kaupin muni dreifa áhættu í rekstri Kaupþings og jafnframt tryggja stöðu bankans sem leiðandi fyrirtækja- og fjárfestingarbanka í þjónustu við lítil og meðalstór fyrirtæki í Evrópu. Í framhaldinu mun Kaupþing starfa í 15 þjóðlöndum.

Hagnaður Kaupþings hefur aukist um 77 prósent og eignir um 75 prósent á ári undanfarin fjögur ár. Þessi aukning hefur náðst með örum innri vexti og með yfirtökum. Talsmenn Kaupþings fullyrða að eftir þessa yfirtöku verði Kaupþing í hópi fremstu fyrirtækja og fjárfestingarbanka í Evrópu. Kaupþingsmenn búast við að yfirtakan gangi greiðlega. Sameinaður banki muni hafa greiðari aðgang að fjármögnun og stærri og sterkari eiginfjárstöðu.

Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri Kaupþings, segir að yfirtakan sé eðlilegt framhald á yfirlýstri stefnu bankans um frekari vöxt og dreifðari rekstur. NIBC sé góður banki sem Kaupþing hafi fylgst með í mörg ár.

Kaupþing skipar einnig annað sætið á listanum yfir stærstu viðskipti Íslandsögunnar í einum gjörningi er bankinn keypti danska fjármálafyrirtækið FIH um mitt ár 2004 á einn milljarð evra, eða 90 milljarða íslenskra króna.

Kaup Novators á öllum hlutum í Actavis fyrr í sumar komast einnig í hóp stærstu viðskipta Íslandsögunnar. Þar skiptu 182 milljarðar króna um eigendur. Þar var þó ekki um einn eiginlegan gjörning að ræða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×