Viðskipti innlent

Kaupþing kaupir hollenskan banka fyrir 270 milljarða

Hreiðar Már Sigurðsson.
Hreiðar Már Sigurðsson. MYND/GVA

Kaupþing hefur undirritað samning um kaup á öllu hlutafé í hollenska bankanum, NIBC Holding BV fyrir um það bil 2.985 milljónir evra, jafnvirði um 270 milljarða íslenskra króna.

Eftir því sem fram kemur í tilkynningu frá Kaupþingi þykir starfsemi NIBC falla einkar vel að starfsemi Kaupþings, hvort heldur sem litið er til landfræðilegrar dreifingar, vöruframboðs eða fyrirtækjamenningar.

NIBC er fyrirtækjabanki, sem var stofnaður 1945. Hjá bankanum starfa 718 manns og er hann með starfstöðvar í Haag, Lundúnum, Brussel, Frankfurt, New York og Singapúr. Seljandi er fjárfestahópur undir forystu J.C. Flowers & Co. LLC.

Í tilkynningunni segir að kaupin muni dreifa áhættu í rekstri Kaupþings og jafnframt tryggja stöðu bankans sem leiðandi fyrirtækja- og fjárfestingarbanka í þjónustu við lítil og meðalstór fyrirtæki í Evrópu. Áþekk fyrirtækjamenning muni auðvelda sameinuðum banka að nýta sér fjölbreytt vöruframboð beggja banka og mismunandi aðgang að mörkuðum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×