Viðskipti erlent

Hlutabréf hækka á mörkuðum í Asíu og Evrópu

MYND/AP

Hlutabréf hækkuðu nokkuð í verði í morgun þegar markaðir í Asíu og Evrópu voru opnaðir en mikil verðfall varð á mörkuðum um allan heim í síðustu viku.

Sérfræðingar sögðu óróann á mörkuðum mega rekja til vanskila í tengslum við svokölluð annars flokks húsnæðislán í Bandaríkjunum en vanskilin hafa aukist með hækkandi stýrivöxtum þar í landi. Seðlabankar víða um heim gripu til þess ráðs að dæla hundruðum milljarða króna inn á markaði á fimmtudag og föstudag til þess að reyna að tryggja jafnvægi.

Seðlabanki Japans dældi svo í morgun inn 600 milljörðum jena, yfir 300 milljörðum króna, og fyrstu tölur á asískum mörkuðum í morgun benda til þess að verðfallið hafi verið stöðvað.

Sama var uppi á teningnum í Evrópu því bæði Dax-vísitalan í Þýskalandi, Cac40-vísitalan í Frakklandi og FTSE-vísitalan í Bretlandi hækkuðu yfir eitt prósent við opnun markaða í morgun, FTSE mest eða um 1,5 prósent. Sömu sögu er að segja af hinum norrænu ríkjunum en þar hafa hlutabréf hækkað í verði í morgun eftir opnun markaða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×