Viðskipti innlent

Háskerpuútsendingar á Digital Ísland

Full útsendingargæði nást ekki nema með sérstöku háskerpusjónvarpi.
Full útsendingargæði nást ekki nema með sérstöku háskerpusjónvarpi.

Sjónvarpsútsendingar í háskerpugæðum (High Definition) hefjast á dreifikerfinu Digital Ísland í haust og verður Digital Ísland því fyrst til að bjóða slíka þjónustu hér á landi. Í fréttatilkynningu frá Vodafone kemur fram að tilraunaútsendingar í háskerpu séu þegar hafnar og gangi vel.

Vodafone, sem á og rekur dreifikerfið, hefur samið við Sýn 2 um að enski boltinn verði sendur út í háskerpu á Digital Ísland en ráðgert er að fleiri stöðvar verði sendar út í háskerpu með haustinu. Samkvæmt reynslu annarra þjóða er íþróttaefni og náttúrulífsmyndir það sjónvarpsefni sem nýtur mestra vinsælda í háskerpu.

Til að horfa á háskerpuútsendingar þarf sérstakan háskerpumyndlykil, sem viðskiptavinir Digital Ísland, munu geta leigt, og til að njóta tækninnar til fulls þarf háskerpusjónvarp. Myndgæði þeirra sem nota venjulegt sjónvarp geta engu að síður aukist mikið við það eitt að nota háskerpumyndlykil en full útsendingargæði nást ekki nema með háskerpusjónvarpi.

Í fréttatilkynningunni segir að nákvæmar upplýsingar um allt sem viðkemur háskerpuútsendingunum verði kynnt ítarlega í ágúst.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×