Viðskipti innlent

VBS fjárfestingarbanki hagnast um rúman einn milljarð króna

Gengi hlutabréfa VBS fjárfestingarbanka hefur hækkaði um 82 prósent frá áramótum.
Gengi hlutabréfa VBS fjárfestingarbanka hefur hækkaði um 82 prósent frá áramótum. MYND/365

Hagnaður VBS fjárfestingarbanka á fyrri hluta þessa árs nam rúmum einum milljarði króna eftir skatta samkvæmt milliuppgjöri bankans. Framkvæmdastjóri bankans segir bankann hafa náð viðsnúningi í vaxtatekjum og aukið verulega tekjur af miðlun verðbréfa.

Samkvæmt milliuppgjöri bankans nam hagnaður eftir skatta rúmum 1,1 milljarði króna. Jafngildir það 39 prósent ávöxtun eigin fjár á ársgrundvelli. Fyrir skatta nam hagnaðurinn rúmum 1,3 milljörðum króna sem jafngildir 48 prósent ávöxtun eigin fjár á ári. Fram kemur í tilkynningu frá bankanum að frá samruna VBS og FSP um síðustu áramót hafi hagnaður numið 10 milljónum á hverjum virkum degi.

Hreinar rekstrartekjur námu tæpum 1,8 milljarði króna og eignir í lok tímabilsins voru 23,6 milljarðar.

Haft er eftir Jóni Þórissyni, framkvæmdastjóra bankans, að árangurinn hafi verið framar björtustu vonum. Hann segir sameiningu bankanna hafa heppnast fullkomlega og verkefnastöðu á öllum afkomusviðum mjög góða. Þá segir hann bankann hafa unnið markvisst að því að auka fjölbreytni í starfseminni og því sé viðsnúningur í vaxtatekjum, uppbygging lánasafns og auknar tekjur af miðlun verðbréfa sérstaklega ánægjulegt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×