Viðskipti innlent

Kaupþing hagnast um tæpa 47 milljarða króna

Innlán jukust verulega á fyrri helmingi ársins.
Innlán jukust verulega á fyrri helmingi ársins. MYND/GVA

Hagnaður Kaupþings á fyrri helmingi þessa árs nam 46,8 milljörðum króna eftir skatta samkvæmt uppgjöri bankans. Jókst hagnaðurinn um nærri helming miðað við sama tímabil í fyrra. Þá námu rekstrartekjur bankans á öðrum ársfjórðungi um 52 milljörðum og jukust um tæp 67 prósent milli ára. Rekstur allra helstu afkomueininga eru betri en áætlanir gerður ráð fyrir segir forstjóri bankans.

Fram kemur í tilkynningu frá bankanum að hreinar vaxtatekjur á öðrum ársfjórðungi hafi aukist um 38 prósent og numið nærri 20 milljörðum króna. Heildareignir bankans námu 4.570 milljörðum króna í lok júní og jukust um 23,3 prósent milli ára. Þá bókar bankinn 4,3 milljarða krónu hagnað vegna sölu á dótturfélagi sínu, Eik fasteignafélagi.

Haft er eftir Hreiðari Má Sigurðssyni, forstjóra bankans, að reksturinn hafi gengið mjög vel á öðrum ársfjórðungi og allar megin starfsstöðvar hafi skila góðri afkomu. Mikil aukning þóknanatekna einkenni uppgjörið en jafnframt sé góður vöxtur í hreinum vaxtatekjum. Þá segir hann það einnig ánægjulegt að innlán bankans hafi aukist það sem af er árinu og nema þau nú 46 prósent af heildarútlánum.

„Við erum að sjá afrakstur mikillar vinnu í Bretlandi skila sér með algerum viðsnúningi í rekstri KSF og þá gengur rekstur allra helstu afkomueininga bankans betur en áætlanir gerðu ráð fyrir," er haft eftir Hreiðari.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×