Innlent

Hvalaferðir ehf á Húsavík kaupa sinn þriðja bát

Nöfnurnar á bryggjunni í Húsavík
Nöfnurnar á bryggjunni í Húsavík
Um miðjan dag í gær þann 07.07.07. sigldi nýr hvalaskoðunarbátur, Sylvía, inn til Húsavíkur í fyrsta skipti, fánum prýdd.

 

Báturinn er 30 tonna eikarbátur sem upphaflega var smíðaður sem fiskveiðibátur hjá skipasmíðastöðinni Vör á Akureyri árið 1976 fyrir Grenvíkinga. Báturinn hefur átt farsælan feril og stundað fiskveiðar öll árin - þar til hann var keyptur frá vestfjörðum fyrir nokkrum vikum síðan og siglt til Akureyrar til breytinga fyrir ferðaþjónustufyrirtækið Gentle Giants - Hvalaferðir ehf á Húsavík.

 

Slippurinn á Akureyri sá um breytingar á bátnum. Það tók einungis 15 vinnudaga að breyta fullbúnu dragnótarskipi með allar græjur um borð yfir í vandað farþegaskip. Í fréttatilkynningu sem fyrirtækið sendi frá sér segir það jaðra við að heimsmet hafi verið sett í afköstum og skipulögðum vinnubrögðum þeirra sem að verkinu komu.

 

Sylvía er 3. báturinn sem fyrirtækið eignast. Hún getur flutt 60 farþega eftir fyrri áfanga breytinganna. Fyrirtækið á einnig Fald - 45 farþega eikarbát og Aþenu, hraðgengan trefjaplastbát sem flytur 24 farþega.

 

Mikill vöxtur hefur verið hjá fyrirtækinu undanfarið í hvalaskoðunarferðum, fuglaskoðunar - og skemmtiferðum til Flateyjar á Skjálfanda, Grímseyjarferðum, sem og í sjóstangaveiðiferðum.

 

Sylvía, er skírð í höfuð yngstu dóttur (5 ára) eiganda og framkvæmdastjóra Gentle Giants, Sylvíu Dís Stefánsdóttur..

 

Sylvía fór í sína fyrstu ferð í morgun samkv. áætlun kl. 09:45 með 50 farþega



Fleiri fréttir

Sjá meira


×