Viðskipti innlent

Gert ráð fyrir óbreyttum stýrivöxtum

Davíð Oddsson, formaður bankastjórnar Seðlabankans.
Davíð Oddsson, formaður bankastjórnar Seðlabankans.

Greiningardeild Kaupþings gerir ráð fyrir því að Seðlabankinn haldi stýrivöxtum óbreyttum í 13,3%, eða sem jafngildi 14,25% ávöxtun á ársgrundvelli. Greiningadeildin telur að núverandi vaxtastig sé nægilegt til að draga úr þenslu í hagkerfinu og að hátt vaxtastig bankans hafi þegar sett mark sitt á þróun mála í hagkerfinu á síðustu misserum.

 

Í hálffimm fréttum Kaupþings segir að tölur um landsframleiðslu á fyrsta fjórðungi ársins 2007 hafi sýnt töluvert meiri samdrátt í innlendri eftirspurn en væntingar hafi verið um. Auk þess hafi tólf mánaða verðbólga verið á niðurleið samhliða því sem krónan hafi verið meira og minna í styrkingarfasa frá áramótum. Þá sé jafnframt útlit fyrir verulega skerðingu á þorskkvóta sem ætti að öðru óbreyttu að hafa kælandi áhrif á hagkerfið.

 

Seðlabanki Íslands ákvarðar stýrivexti á morgun og mun jafnframt gefa út endurskoðaða hagspá fyrir árin 2007-2009.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×