Viðskipti innlent

Hámarkslánhlutfall lækkar í 80%

Greiningadeild Kaupþings telur lækkun hámarkslánhlutfalls jákvæða.
Greiningadeild Kaupþings telur lækkun hámarkslánhlutfalls jákvæða.
Félagsmálaráðherra samþykkti í dag að lækka hámarkslánshlutfall Íbúðalánasjóðs úr 90% í 80%. Þessar breytingar taka gildi frá og með morgundeginum. Þá var jafnframt ákveðið að halda hámarkslánum óbreyttum í 18 milljónum króna.

Íbúðalánasjóður hækkaði lánshlutfall almennra lána í 90% í mars síðastliðnum og töldu greiningardeildir bankanna á þeim tíma að slík aðgerð væri varasöm í ljósi þenslumerkja í hagkerfinu og eingöngu til þess fallin að ýta undir frekari hækkun fasteignaverðs. Frá þessum tíma hafa umsvif á fasteignamarkaði aukist umtalsvert og í dag er tólf mánaða hækkun fasteignaverðs komin upp í 9,5%.

Fasteignaverð vegur þungt í vísitölu neysluverðs og hefur því verið meginþáttur í hækkun á vísitölu neysluverðs á síðustu mánuðum. Að mati Greiningardeildar Kaupþings eru aðgerðirnar sem félagsmálaráðherra kynnti í dag því jákvæðar. Þær ættu að sporna gegn frekari þenslu á fasteignamarkaði og þar með draga úr þeim verðbólguþrýstingi sem enn er til staðar í hagkerfinu, að því er fram kemur í Hálf fimm fréttum Kaupþings.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×