Viðskipti innlent

Norvik banka fær einkunn hjá Moody’s

MYND/Samsett/Kristinn

Norvik banka í Lettlandi, sem er í eigu Íslendinga, hefur fengið lánshæfiseinkunnina Ba3 frá alþjóðlega matsfyrirtækinu Moody's Investor Service, auk einkunnar á fjárhagslegum styrkleika upp á D- og mat á skammtímaskuldbindingum "Non-Prime". Horfur eru stöðugar varðandi allar einkunnir. Ba3 er hærri einkunn en bankinn hefur frá Fitch, sem er B+ með jákvæðar horfur.

Í tilkynningu frá bankanum er greint frá því að það sem Moody's telji helst til kosta sé við mat á fjárhagslegum styrkleika séu mikil gæði eignasafns, góð eiginfjárstaða og sú stefna ráðandi hluthafa að auka við hlutafé bankans eftir því sem þörf krefur til að styðja við vöxt hans. Mat Moody's er að stuðningur fjármálakerfisins við bankann myndi ekki koma til og byggist einkunnin því ekki á væntingum um slíkan stuðning.

„Norvik banka er lettneskur banki sem lánar aðallega til lítilla og meðalstórra fyrirtækja, sem og einstaklinga," segir ennfremur í tilkynningunni. „Markaðshlutdeild bankans í Lettlandi er 1,9%, bæði í eignum og útlánum. Í fyrirtækjalánum sérhæfir bankinn sig í lánum til fyrirtækja í framleiðslu, flutningum, samgöngufjárfestingum og alþjóðaviðskiptum." Bankinn er með 13 útibú auk höfuðstöðva og 77 minni afgreiðslustaða í Lettlandi."

Móðurfélag Norvik banka er Straumborg ehf., sem er fjárfestingarfélag í eigu fjölskyldu Jóns Helga Guðmundssonar. Straumborg ehf. rekur einnig Norvik bank í Moskvu sem sérhæfir sig í fyrirtækjalánum þar í borg. Norvik banka rekur lánafyrirtæki í Armeníu og er einnig með skrifstofur í London, Englandi, og Minsk, Hvíta-Rússlandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×