Viðskipti innlent

Peningamarkaðs-sjóðir bólgna út

Eggert Þór Aðalsteinsson

skrifar

Peningamarkaðssjóðir hafa tútnað út á undanförnum mánuðum með háu nafnvaxtastigi og tiltölulega lítilli verðbólgu og eru orðnir risastórir verðbréfasjóðir. Þetta eru í raun og veru einu skuldabréfasjóðirnir sem hafa verið að vaxa frá áramótum. Er nú svo komið að heildarstærð þessara sjóða, sem eru í vörslu viðskiptabankanna og sparisjóðanna, er yfir þrjú hundruð milljarðar króna að sögn sjóðsstjóra sem rætt var við.

Sjóðirnir, sem fjárfesta í skammtímapappírum, einkum stuttum skuldabréfum, víxlum og innlánum, hafa reynst góður kostur fyrir almenning og aðra fjárfesta sem vilja fjárfesta til skamms tíma með lítilli áhættu. Fjárfestar hafa getað fengið um fimmtán prósenta nafnávöxtun, sem svarar til um tólf prósenta árlegrar raunávöxtunar. Þannig geta fjárfestar sem hafa fjárfest í hlutabréfum með góðum árangri á árinu losað um þau bréf og fengið til viðbótar nánast örugga háa ávöxtun af peningamarkaðsbréfum miðað við það háa raunvaxtastig sem nú er. Kostur þessara sjóða er ekki síður sá að binditími er nær enginn og viðskiptakostnaður lágur.

Meðal þeirra bréfa sem sjóðirnir kaupa eru fyrirtækjavíxlar, sem eru vinsæl fjármögnunarleið hjá fyrirtækjum um þessar mundir. Fyrirtæki af flestum stærðum og gerðum eru að fjármagna sig til skemmri tíma óverðtryggt á 15,5-17,0 prósenta vöxtum sem endurspegla það vaxtastig sem ríkir innanlands.

Á sama tíma og hlutabréf og peningamarkaðs­sjóðir hafa skilað fjárfestum framúrskarandi ávöxtun hefur verið útstreymi úr millilöngum og löngum verðbréfasjóðum sem fjárfesta meðal annars í verðtryggðum pappírum. Á árunum 2004 og 2005 voru aðallega gefin út fimm til sjö ára verðtryggð fyrirtækjaskuldabréf en aðeins handfylli af slíkum bréfum hefur komið til útgáfu síðasta eina og hálfa árið. Eftirspurnin gæti aukist með haustinu en það er háð því að vextir taki að lækka.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×