Viðskipti innlent

Spá 150 þúsund tonna þorskkvóta

Greiningardeild Glitnis spáir því að þorskkvótinn verði 150 þúsund tonn í ljósi nýrrar skýrslu Hagfræðistofnunar um þorskstofninn og viðbragða ráðamanna við henni.

Í skýrslunni kom meðal annars fram að það væri þjóðhagslega hagkvæmt að draga verulega úr þorskveiðum. Í Morgunkorni Glitnis í dag hefur greiningardeild bankans endurskoðað spá sína um þorskkvóta og telur nú að hann verði 150 þúsund tonn í stað 160 þúsund tonna í fyrri spá.

Þorskkvótinn á yfirstandandi fiskveiðiári er 193 þúsund tonn og segir greiningardeildin að niðurskurður í 150 þúsund tonn þýði að útflutningstekjur þjóðarinnar verði um tólf milljörðum króna minni á fiskveiðiárinu og að hagvöxtur minnki um 0,5 prósent. Slíkt hjálpi aftur á móti Seðlabankanum að lækka stýrivexti fyrr. Ákvörðun sjávarútvegsráðherra um þorskkvóta er að vænta fyrir miðjan júlí.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×