Innlent

Hjallastefnan rekur leikskóla í Reykjanesbæ

Í dag skrifa bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ undir samning við Hjallastefnuna ehf. um rekstur leikskólans Akurs við Tjarnabraut sem er nýr 6 deilda leikskóli fyrir 140 börn. Skólinn mun taka til starfa í september og mun hann starfa eftir hugmyndafræði Hjallastefnunnar.

„Þannig starfa stúlkur og drengir sitt í hvoru lagi stóran hluta dagsins en æfa svo samskipti og virðingu kynjanna reglubundið," segir í tilkynningu frá bænum. „Leikefniviður er einfaldur og umhverfið áreitalítið og kynjanámskrá Hjallastefnunnar er í fyrirrúmi með einstaklingsstyrkingu og eflingu félagsfærni hjá hverju barni."

Samningurinn gildir til ársins 2012 en leikskólastarf verður samkvæmt lögum og reglugerð um aðalnámskrá leikskóla og skólastefnu Reykjanesbæjar. Heiðrún Scheving Ingvarsdóttir verður leikskólastjóri á Akri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×