Viðskipti innlent

Glitnir les í orð forsætisráðherra

Greiningardeild Glitnis spáir því að millileiðin verði farin þegar kemur að því að taka ákvörðun um kvótaúthlutun fyrir næsta fiskveiðiár. Þeir spá þessu eftir að hafa hlustað á þjóðhátíðardagsræðu Geirs H. Haarde í gær. Sú leið gæti minnkað útflutningstekjur um 10 milljarða króna.

Í Morgunkorni Glitnis er meðal annars haft eftir Geir að ríkisstjórnin standi einhuga að baki sjávarútvegsráðherra í því að ákvörðun um kvóta næsta árs verði tekin að „vandlega athuguðu máli, að fyrir liggi allar hliðar málsins áður en ákvörðun er tekin, ekki einvörðungu hin fiskifræðilega, að leitað verði samstöðu sem flestra um niðurstöðu og jafnframt litið sérstaklega til þeirra byggðarlaga sem verst standa. Hverjum manni er það ljóst að þjóðin er nú betur í stakk búin til að takast á við áföll á þessu sviði en oftast áður. Nú er meiri viðspyrna og við höfum betri efni á að líta til lengri tíma og taka á okkur byrðar sem létt gætu róðurinn síðar. Það eru hyggindi sem í hag koma".

Glitnismönnum þykja þessi orð forsætisráðherra renna stoðum undir þá skoðun þeirra „að í ljósi reynslu fyrri ára sé líklegt að sjávarútvegsráðherra fari ekki eftir ráðleggingum Hafró að fullu en minnki engu að síður þorskkvóta núverandi fiskveiðiárs um nálægt 30 þús. tonn. Við eigum því von á eins konar millileið hjá sjávarútvegsráðherra. Sú leið gæti minnkað útflutningstekjur um nálægt 10 milljarða kr," segir að lokum í Morgunkorni Glitnis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×