Viðskipti erlent

EMI-útgáfan samþykkir yfirtökuboð

EMI gefur út tónlist fjölda flytjenda. Þar eru þekktastir Bítlarnir, Coldplay og Robbie Williams svo einhverjir eru nefndir.
EMI gefur út tónlist fjölda flytjenda. Þar eru þekktastir Bítlarnir, Coldplay og Robbie Williams svo einhverjir eru nefndir.

Stjórn bresku tónlistarútgáfunnar EMI samþykki á mánudag að taka yfirtökutilboði fjárfestingasjóðsins Terra Firma. Tilboðið hljóðar upp á 265 pens á hlut, eða 2,4 milljarða punda, jafnvirði 298 milljarða íslenskra króna. Gengi bréfa í félaginu rauk upp um 23 pens í kjölfarið og endaði í 271 pensi á hlut við lokun markaða.

Það mun vera vísbending um að einhverjir hluthafa hafi reiknað með öðru og hærra boði í félagið.EMI hefur átt við rekstrarvanda að stríða vegna minnkandi tekna og skilaði tapi upp á 260 milljónir punda, jafnvirði rúmra 32 milljarða íslenskra króna, á síðasta ári. Þá stefnir ekki í gott ár hjá fyrirtækinu en það hefur gefið út tvær neikvæðar afkomuviðvaranir á þessu ári.

Stjórnendur tónlistarútgáfunnar ákváðu að setja EMI í söluferli fyrr á árinu og opnuðu bækurnar fyrir hugsanlegum kaupendum í síðustu viku.

Nokkrir fjárfestingasjóðir og bandaríski útgáfurisinn Warner Music glugguðu í bækur EMI en gerðu ekki tilboð.

Tilboð Terra Firma kemur nokkuð á óvart enda hefur félagið ekki fjárfest í tónlistar- og afþreyingaiðnaði. Fréttaveitan Bloomberg hefur hins vegar eftir heimildamönnum sem tengjast Guy Hands, forstjóra félagsins, að hann hafi skoðað tónlistar­útgáfuna síðastliðin tvö ár og látið vaða þegar færi gafst.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×