Viðskipti innlent

Ráðinn tæknilegó hönnuður sextán ára

Jóhann Breiðfjörð með tæknilegó vélmenni sem hann sýnir krökkunum sem koma á tæknilegó námskeiðin.
Jóhann Breiðfjörð með tæknilegó vélmenni sem hann sýnir krökkunum sem koma á tæknilegó námskeiðin. MYND/vilhelm

Jóhann Breiðfjörð starfaði sem hönnuður hjá LEGÓ í mörg ár. Nú kennir hann íslenskum krökkum að byggja tæknilegó.

„Ég var mikið legónörd sem krakki og var alltaf að byggja eitthvað. Þegar ég var sextán ára fór ég til Danmerkur með vélmenni sem ég hafði byggt úr tæknilegói. Ég bankaði upp á hjá forstjóra LEGÓ og var síðan ráðinn eftir nokkur prufuverkefni," segir Jóhann Guðmundur Breiðfjörð, sjálfmenntaður tæknilegóhönnuður. Jóhann var fyrstur erlendra hönnuða sem var ráðinn hjá fyrirtækinu og starfaði þar næstu fimm árin. Fyrst á sumrin með framhaldsskóla og síðan í fullu starfi eftir stúdentspróf.

„Ég fékk um 200 kíló af tæknilegói sent til Íslands. Síðan setti ég saman módelin hérna og sendi til Danmerkur ásamt hugmyndum," segir Jóhann sem á hlutdeild í mörgum tæknilegó leikföngunum sem LEGÓ hefur framleitt.

„Ég var aðallega í hugmyndaþróun en ef þeim leist vel á módelin voru þau þróuð áfram og sum fóru í framleiðslu. Flest leikföngin eru þó samstarfsverkefni margra hönnuða," segir Jóhann.

Allar hugmyndir sem hann hefur unnið fyrir LEGÓ eru trúnaðarmál. Módelin sem hann byggir í dag eru hins vegar ekki leyndarmál. „Ég á nokkur gæluverkefni sem ég gríp í. Til dæmis þegar sjónvarpsdagskráin er leiðinleg," segir Jóhann.

Í dag kennir Jóhann íslenskum krökkum að byggja tæknilegó meðal annars á vegum Íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkurborgar og hjá Símenntun Mímis. „Ég kenni krökkunum að nota rafmagnsmótora og tannhjól og gíra upp og niður. Þau hafa frjálsar hendur við verkefnaval þar sem þau standa misjafnlega að vígi. Síðan hjálpa ég þeim að útfæra það sem þau langar til að gera," segir Jóhann.

Næsta tæknilegónámskeið er á vegum Símenntunar Mímis fyrir krakka á aldrinum 6-12 ára og hefst í júní. Nánari upplýsingar: www.mimir.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×