Viðskipti innlent

Tuttugu og tvær konur útskrifast af Brautargengi

Tuttugu og tvær konur útskrifuðust í maí af námskeiðinu Brautargengi sem Impra nýsköpunarmiðstöð stendur fyrir.
Tuttugu og tvær konur útskrifuðust í maí af námskeiðinu Brautargengi sem Impra nýsköpunarmiðstöð stendur fyrir.

Í upphafi þessa mánaðar útskrifuðust 22 konur af námskeiðinu Brautargengi, sem Impra nýsköpunarmiðstöð stendur fyrir. Námskeiðið er sérstaklega sniðið fyrir athafnakonur sem hyggjast stofna eða reka þegar fyrirtæki.

Helga Ósk Einarsdóttir hlaut viðurkenningu fyrir bestu viðskiptahugmyndina. Í tilkynningu frá Impru segir að Helga Ósk sé einn af fáum íslenskum gullsmiðum sem hafi tileinkað sér smíði víravirkis – búningasilfurs sem á sér rætur í klæðnaði íslenskra kvenna allt frá 16. öld. Hún hefur hannað skartgripalínu til að skipa þessu flókna handverki nýjan sess. Þykir hún hafa sýnt og sannað að hún geti framkvæmt hlutina því auk hönnunarinnar hefur hún sjálf annast markaðssetningu og kynningu.

Hvatningarverðlaun hlutu Arna Vignisdóttir, Hulda Hallgrímsdóttir og Sigrún Dóra Jónsdóttir, sem saman standa að fyrirtækinu „Maddama, kerling, fröken, frú“. Þær eru allar textílkennarar að mennt og hafa mikinn áhuga á ull og eiginleikum hennar. Þær ætla að sameina krafta sína og setja á stofn fyrirtæki sem samanstendur af verslun, verkstæði og galleríi með íslenskar hönnunar­vörur þar sem viðskiptavinurinn getur fylgst með vinnuferli vörunnar.

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarstjóri veitti viðskiptahugmyndunum viðurkenningu. Þá veitti Ólafur Haraldsson, framkvæmdastjóri SPRON, höfundum viðskiptahugmyndanna fjárframlag til stofnkostnaðar. SPRON er styrktaraðili námskeiðsins auk Reykjavíkurborgar og sveitarfélaga.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×