Viðskipti erlent

Eldsneytisverð í hámarki vestanhafs

Eldsneytisverð hefur hækkað nokkuð á árinu og hefur ekki verið hærra í Bandaríkjunum síðan snemma á níunda áratug síðustu aldar.
Eldsneytisverð hefur hækkað nokkuð á árinu og hefur ekki verið hærra í Bandaríkjunum síðan snemma á níunda áratug síðustu aldar. MYND/AFP

Heimsmarkaðsverð á hráolíu hækkaði í vikubyrjun eftir að skæruliðar réðust á ónotaða olíuvinnslustöð í eigu franska olíufyrirtækisins Total í Nígeríu á mánudag.

Þótt skæruliðarnir hafi ekki unnið nein skemmdarverk er olíumarkaðurinn mjög viðkvæmur fyrir tíðum skærum í Nígeríu enda hefur framleiðsla þar í landi dregist saman um rúm þrjátíu prósent síðan í febrúar í fyrra vegna þessa. Samdrátturinn skiptir miklu máli fyrir heildarframleiðslu á hráolíu.

Orkumálaráðuneyti Bandaríkjanna gefur út vikulega skýrslu sína um olíubirgðir landsins síðar í dag. Gert er ráð fyrir að heildarbirgðir aukist nokkuð á milli vikna þótt spáð sé samdrætti á eldsneytisbirgðum. Því megi gera ráð fyrir nokkurri hækkun á eldsneytisverði vestanhafs á næstunni en það hefur nú ekki verið hærra síðan í byrjun níunda áratugarins, að sögn fréttastofu Reuters. Þetta þykja ekki góðar fréttir við byrjun sumars þegar margir verða á ferðinni á vegum landsins.

Verð á Brent-Norðursjávarolíu hækkaði um 1,07 dali í 71,50 dali á tunnu á mánudag. Í gær hægði á en verðið hefur þó ekki farið undir 70 dalina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×