Viðskipti innlent

Vöruskiptahalli eykst frá fyrri mánuðum

MYND/GVA

Vöruskipti við útlönd reyndust óhagstæð um rúma ellefu milljarða í aprílmánuði samkvæmt tölum Hagstofunnar. Það er um milljarði meiri halli en í sama mánuði í fyrra en þá var hann rúmir tíu milljarðar. Vörur voru fluttar út fyrir 19 milljarða króna í apríl síðastliðnum og inn fyrir rúma 30.

Þegar horft er til fyrstu fjögurra mánaða ársins var vöruskiptahallinn hins vegar 20 milljarðar króna þannig að rúmur helmingur hallans á árinu kemur til í apríl.

Þessi halli er þó rúmlega helmingi minni en á sama tímabili í fyrra en þá nam hann nærri 47 milljörðum. Skiptir þar mestu að verðmæti vöruútflutnings var þriðjungi meiri á fyrstu fjórum mánuðum ársins en á sama tíma í fyrra.

Sjávarafurðir voru 46 prósent alls útflutnings og var verðmæti þeirra 10 prósentum meira en á sama tíma árið áður. Útfluttar iðnaðarvörur voru 40 prósent alls útflutnings og var verðmæti þeirra 43 prósentum meira en árið áður. Aukningu útflutnings má einna helst rekja til aukins álútflutnings og sölu flugvéla til útlanda.

Í innflutningi varð mestur samdráttur á fólksbílum og flugvélum en á móti kom aukning í innflutningi á hrá- og rekstrarvöru.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×