Viðskipti innlent

Century Aluminum sækist eftir skráningu í Kauphöllina

Century Aluminum Company, móðurfélag Norðuráls, hefur óskað eftir því að verða skráð í Kauphöll Íslands. Eftir því sem fram kemur í tilkynningu frá félaginu er það skráð á bandaríska Nasdaq-markaðinn og er það fyrsta skráða fyrirtækið í Bandaríkjunum, sem sækir um skráningu á Íslandi. Félagið verður því bæði skráð í Bandaríkjunum og á Íslandi.

Stefnt er að því að auka hlutafé Century Aluminum um fjórðung og gæti söluandvirði hlutanna numið allt að 28 milljörðum króna miðað við núverandi markaðsverð fyrirtækisins. Íslenskum stofnana- og fagfjárfestum verður boðið að taka þátt í útboðinu sem fram fer á sama tíma í Bandaríkjunum og á Íslandi. Umsjón með útboðinu á Íslandi er í höndum Kaupþings banka og Landsbanka Íslands.

Reiknað er með því að nota meginhluta af auknu hlutafé til að fjármagna fyrirhugaða byggingu álvers í Helguvík en reiknað er með að framkvæmdir geti hafist þar í byrjun næsta árs.

Ragnar Guðmundsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar og fjármálasviðs Norðuráls, segir í tilkynningu að skráning Century Aluminum á Íslandi sé í samræmi við þá stefnu fyrirtækisins að treysta böndin við íslenskt samfélag. „Við höfum áður leitað til íslenskra banka með verkefni og svo vel tókst til að eftir því var tekið. Nú stefnum við að því að auka enn samstarfið með því að gera okkur sýnilegri á íslenska fjármálamarkaðinum," segir Ragnar.

 

Útboðsferlið hefst formlega á morgun miðvikudaginn 30. maí með kynningum fyrir fagfjárfesta. Það stendur út næstu viku. Í framhaldi af því verður félagið skráð á First North Iceland og gefst þá almenningi kostur á að eiga viðskipti með hluti í fyrirtækinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×