Viðskipti erlent

Norsk Hydro undirbýr tilboð í Alcan

Norska stórfyrirtækið Norsk Hydro undirbýr nú tilboð í kanadíska álfyrirtækið Alcan, sem rekur meðal annars álverið í Straumsvík. Frá þessu er greint í kanadíska dagblaðinu Globe and Mail í dag. Alcan hafnaði nýlega tilboði í félagið frá Alcoa en á föstudag var greint frá því að Alcan myndi íhuga betra tilboð frá Alcoa ef það bærist.

En nú mun Norsk Hydro vera að íhuga að blanda sér í baráttuna og segja heimildir blaðins að tilboð Norðmannanna hljóði upp á 30 milljarða bandaríkjadala, eða um 1860 milljarðar íslenskra króna.

Kanadamennirnir segja að fleiri kunni þó að verða um hituna því fyrirtæki á borð við BHP Billiton og Rio Tinto væru einnig að íhuga tilboð.

Þá segir að ekki sé loku fyrir það skotið að Alcan snúi dæminu við og bjóði í Alcoa. Það er því líflegt á markaði álfyrirtækja um þessar mundir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×