Viðskipti innlent

Gerir ráð fyrir að krónan styrkist fram á haust

MYND/Heiða

Greiningardeild Glitnis gerir ráð fyrir að dollarinn fari niður í 60 krónur á næstu vikum og evran í 81 króna vegna þess að gengi krónunnar heldur áfram að styrkjast. Í Morgunkorni Glitnis er bent á að kónan hafi styrkst um 13 prósent það sem af er ári og reiknað er með að hún haldist sterk fram á haust.

Gerir greiningardeildin ráð fyrir að gengisvísitala krónunnar fari niður í 110 í sumar eða jafnvel enn neðar og þar með verði erlendur gjaldeyrir enn ódýrari. Þar myndist því gott kauptækifæri á gjaldeyrismarkaði.

Gert er ráð fyrir því í spá greiningardeildar Glitnis að gengi krónunnar lækki nokkuð snarpt á haustmánuðum samhliða vaxtalækkunarferli Seðlabankans og minni þenslu í þjóðarbúskapnum.

Snörp lækkun sé ekki óalgeng eftir styrkingartímabil. Þarf ekki að líta lengra aftur en til vormánaða síðasta árs, þegar gengi krónunnar lækkaði um ríflega 16 prósent á tveimur mánuðum eftir að hafa styrkst undangengna mánuði.

Greiningardeildin gerir ráð fyrir að gengi krónunnar lækki fram á mitt næsta ár samhliða hratt lækkandi stýrivöxtum Seðlabankans. Nokkrar líkur séu á svokölluðu yfirskoti, það er að gengi krónunnar fari tímabundið í lægra gildi en nauðsynlegt er til að ná hagkerfinu í jafnvægi.

Gerir greining Glitnis ráð fyrir að um mitt næsta ár verði evran í 97 krónum og að dollarinn fari hæst í 72 krónur. Svo hækki gengið nokkuð á ný á seinni helmingi næsta árs og að gengisvísitalan verði nálægt 127 í lok næsta árs.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×