Viðskipti innlent

Eimskip selur flugrekstrarhluta félagsins

MYND/Vilhelm

Stjórnendur Eimskipafélags Íslands hafa ákveðið að selja þær eignir félagsins sem tengjast flugrekstri, þar á meða Air Atlanta flugfélagið. Fram kemur í tilkynningu frá Eimskip að ABN Amro Bank og Hannesi Hilmarssyni, forstjóra Air Atlanta, hafi verið falið að sjá um söluna og er stefnt að því að ljúka sölunni á Air Atlanta á næstu mánuðum. Air Atlanta hefur yfir að ráða 25 flugvéla flota og eru vélarnar leigðar til lengri og skemmri tíma til annarra flugfélaga.

 

Auk þess að eiga Air Atlanta á Eimskipafélagið nærri helmingshlut í Avion Aircraft Trading. Hinn helmingurinn er í eigu Hafþórs Hafsteinssonar og Arngríms Jóhannssonar. Gert er ráð fyrir að það söluferli klárist á næstu vikum í samráði við Hafþór og Arngrím.

Félagið áætlar að heildaráhrif sölunnar á flugrekstrarhlutanum á efnahaginn verði 25 milljarðar króna og verður söluandvirðið notað til frekari vaxtar og til að greiða niður skuldir eins og segir í tilkynningu.

Eimskipafélagið hyggst því einbeita sér að frekari uppbyggingu í skiparekstri og kæli- og frystigeymslulausnum á alþjóðavísu í stað flugrekstrar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×