Viðskipti erlent

Hlutabréf hækka í Alcoa

Verð á hlutabréfum í bandaríska álrisanum Alcoa mældist það hæsta í fimm ár við lokun markaða í gær þrátt fyrir að stjórn kanadíska álfyrirtækisins Alcan hefði fyrr í vikunni hafnað fjandsamlegu yfirtökutilboði þess.

Verð á bréfum í Alcan hefur einnig hækkað töluvert. Tilboð Alcoa hljóðaði upp á jafnvirði tæplega tvö þúsund og eitt hundrað milljarða íslenskra króna. Stjórnarformaður Alcan segir það ekki í samræmi við verðmæti fyrirtækisins sem sé nú í viðræðum við þriðja aðila um kaup. Fulltrúar Alcoa segja að með yfirtöku á Alcan yrði til stærsti álframleiðandi heims.

Alcan er með starfsemi í sextíu og einu landi og Alcoa í fjörutíu og fjórum. Bæði fyrirtækin starfa hér á landi, Alcan í Straumsvík og Alcoa í Reyðarfirði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×