Viðskipti innlent

Icelandic Group hagnast um nærri 200 milljónir

MYND/GVA

Fisksölufyrirtækið Icelandic Group hagnaðist um 2,3 milljónir evra, jafnvirði um 190 milljóna króna, á fyrsta ársfjórðungi þessa árs samkvæmt uppgjöri sem birt var í dag. Er það um helmingi meiri hagnaður en á sama tímabili í fyrra.

Félagið seldi vörur fyrir um 32 milljarða íslenskra króna á tímabilinu sem er einu prósenti meira en á fyrsta ársfjórðungi síðasta árs. Hafa heildareignir félagsins aukist um fimm milljónir evra á milli ára og nema nú tæpum 912 milljónum evra, eða um 75 milljörðum. Arðsemi eigin fjár var 5,3 prósent.

Haft er eftir Björgólfi Jóhannssyni, forstjóra Icelandic Group, að salan sé svipuð og á síðasta ári en kostnaður hafi lækkað verulega. „Þær aðgerðir í rekstri félagsins sem við höfum verið að vinna að frá fyrri hluta árs 2006 eru að skila sér og eiga eftir að skila sér enn betur á næstu misserum. Margar erfiðar ákvarðanir hafa tekið í hjá félaginu á undanförnum mánuðum en ég tel að við séum núna búin að koma félaginu í stöðu til að ná enn betri árangri í framtíðinni," segir Björgólfur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×