Viðskipti innlent

TM Software semur við norsku sjúkrahúsapótekin

Uppi frá vinstri: Ingimar Helgason, sölu- og markaðsstjóri hjá TM Software, Magnús Kristjánsson, þróunarstjóri hjá TM Software, og Børre Storebakken, frá sjúkrahúsapótekinu ANS í Osló. Niðri frá vinstri: Garðar Már Birgisson, framkvæmdastjóri hjá TM Software og Terje Wistner frá sjúkrahúsapótekinu ANS í Osló.
Uppi frá vinstri: Ingimar Helgason, sölu- og markaðsstjóri hjá TM Software, Magnús Kristjánsson, þróunarstjóri hjá TM Software, og Børre Storebakken, frá sjúkrahúsapótekinu ANS í Osló. Niðri frá vinstri: Garðar Már Birgisson, framkvæmdastjóri hjá TM Software og Terje Wistner frá sjúkrahúsapótekinu ANS í Osló.

Íslenska tæknifyrirtækið TM Software og norsku sjúkrahúsapótekin ANS hafa undirritað samning um þróun hugbúnaðar fyrir rafræna lyfjaumsýslu. Þetta er sagður stærsti samningur íslensks fyrirtækis á sviði heilbrigðisupplýsingatækni.

TM Software varð fyrir valinu eftir alþjóðlegt útboð sem sjúkrahúsapótekin stóðu fyrir og segir í tilkynningu frá TM Softvare að sérfræðiþekking en ekki lægsta tilboð hafi ráðið úrslitum.

Með hugbúnaði TM Software geta læknar skráð lyfseðla í rafrænt lyfjafyrirmælaforrit og fer þá seðilinn til apóteksins. Þar fer lyfjafræðingur yfir seðilinn og sendir síðan áfram á sérhæft skömmtunarvélmenni sem tínir til lyf sjúklings, pakkar þeim og strikamerkir.

Lyfjunum er síðan komið til hjúkrunarfræðinga með rörpósti upp á deild eða með vélmennum sem sendast með lyf sem þurfa sérstaka meðhöndlun. Að lokum gefur hjúkrunarfræðingur sjúklingi lyfið en sértækt strikamerki á lyfjaskammtinum tryggir að rétt lyf sé gefið réttum einstaklingi á réttum tíma.

Í tilkynningu frá TM Software segir að þessi lausn sé fullkomnasta lyfaumsýslukerfi sem þekkist og sé gríðarlegur hagur jafnt fyrir þá sem þiggja heilbrigðisþjónustuna og þá sem veita hana.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×