Innlent

Harmar óábyrgan fréttaflutning af Tónlist.is

Stefán Hjörleifsson, framkvæmdastjóri Tónlist.is.
Stefán Hjörleifsson, framkvæmdastjóri Tónlist.is. MYND/HJ

Framkvæmdastjóri vefsíðunnar Tónlist.is vísar því á bug að ekki séu greidd stefgjöld vegna sölu á tónlist á vefsíðunni. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá framkvæmdastjóranum. Hann boðar ennfremur breytt fyrirkomulag í tengslum við stjörnugöf á vefnum.

Fram kom í Fréttablaðinu í dag að ungir tónlistarmenn séu ósáttir við stjörnugjöf á vefnum Tónlist.is. Segja þeir vefinn hygla ákveðnum útgefendum á kostnað annarra. Þannig fái plötur sem gefnar eru út af Senu og Cod mun betri stjörnugjöf en plötur frá öðrum útgefendum en Sena og Cod eru í sömu eigu og Tónlist.is. Þá hafa sumir tónlistarmenn fullyrt að þeir hafi ekki séð krónu fyrir sölu á tónlist á síðunni.

Í yfirlýsingu sem Stefán Hjörleifsson, framkvæmdastjóri Tónlist.is, sendi frá sér í dag er því vísað bug að ekki hafa verið greidd stefgjöld vegna sölu á tónlist á vefsíðunni. Hann segir vefsíðuna með samning við útgefendur og að búið sé að gera upp við alla umboðsaðila og senda þeim uppgjör. Hann harmar fréttaflutning Fréttablaðsins og segir hann óábyrgan.

Þá segir Stefán ennfremur að stjörnugjöfinni hafi verið ætlað að auka gagnvirkni milli vefjarins og notenda. Þegar vefurinn var upphaflega settur í loftið hafi allar plötur fengið sjálfvirkt þrjár stjörnur og síðan var það stjörnugjöf notenda sem réð því hvort platan færðist upp á við eða niður. Þetta hefur nú verið leiðrétt og framvegis verða nýjar plötur án stjarna þangað til einhver notandi gefur viðkomandi plötu stjörnu.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×