Viðskipti innlent

Verðbólguþrýstingur enn of mikill

MYND/Anton Brink

Davíð Oddsson seðlabankastjóri, segir undirliggjandi verðbólgu enn langt yfir verðbólgumarkmiðum bankans og að verðbólga hafi hjaðnað nokkru hægar en spá bankans í mars hafi gert ráð fyrir. Þetta kom fram á blaðamannafundi í Seðlabankanum þar sem kynntur var rökstuðningur bankans fyrir því að halda stýrivöxtum óbreyttum, eða í 14,25 prósentum.

Fram kom í rökstuðningnum að verðbólguhorfur næstu ára væru áþekkar og í mars og að framvinda efnahagsvísbendinga það sem af er ári virtist í aðalatriðum í samræmi við þjóðhagsspá Seðlabankans. Vöruútflutningur hefði þó sennilega verið meiri en spáð var og fjölgun starfa benti til þess að umsvif í efnahagsífinu yrðu ekki minni næstu mánuði en falist hafi í spánni.

Þá benti Davíð á í rökstuðningi bankans að hagstæð skilyrði á alþjóðlegum fjármálamörkuðum, háir innlendir vextir og bjartsýni í efnahagslífinu hefðu stuðlað að háu gengi krónunnar en mikill viðskiptahalli og tiltölulega hátt raungengi fælu áfram í sér verulega hættu á lækkun gengisins.

Þá gætu verðbólguhorfur versnað, einkum ef gengið lækkaði áður en það drægi úr spennu á vinnumarkaði sem engin teikn væru um enn. Þá gætu verðlagsáhrif launahækkana undanfarið ár langt umfram framleiðnivöxt enn átt eftir að koma fram að fullu.

Seðlabankinn gerir ráð fyrir að ná verðbólgumarkmiðum sínum á þriðja fjórðungi þessa árs en á næsta ári ef litið er fram hjá áhrifum lækkunar neysluskatta í mars. „Þótt horfurnar nú séu í meginatriðum svipaðar er ítrekað að meiri hætta er talin á að verðbólga verði meiri en spáð var en að hún verði minni. Nýleg verðþróun, áframhaldandi spenna á vinnumarkaði, mikill viðskiptahalli og sterk eftirspurn undirstrika þessa hættu. Versni verðbólguhorfur frá því sem gert var ráð fyrir í marsspánni mun Seðlabankinn þurfa að bregðast við," segir í rökstuðningum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×