Viðskipti innlent

Afskráning Actavis geti haft jákvæð áhrif á krónu og hlutabréf

Greiningardeild Kaupþings telur að afskráning Actavis af markaði geti haft jákvæð áhrif á gengi bæði hlutabréf og krónunnar. Í hálffimmfréttum greiningardeildarinnar er fjallað um yfirtökutilboð Novators í Actavis.

Bent er á að miðað við yfirtökutilboðið sé markaðsvirði Actavis um 280 milljarðar eða um 10 prósent af íslenska hlutabréfamarkaðinum. Það sé stærsta skráða félagið hérlendis að undanskildum bönkum og fjármálafyrirtækjum. Novator sé hins vegar alþjóðlegt fyrirtæki og því sé líklegt að greiðslur til íslenskra hluthafa verði í erlendri mynt.

Telur greiningardeildin að afskráning Actavis feli líklega í sér um 100 milljarða viðskipti þar sem bréf séu keypt af íslenskum hluthöfum með erlendri mynt.

Gera megi því skóna að um 65-70 prósent af þessum fjármunum verði endurfjárfest hérlendis og þá einkum á hlutabréfamarkaðinum. „Þannig virðist það einsýnt að afskráning Actavis muni hafa töluverð jákvæð flæðisáhrif fyrir bæði krónu og hlutabréf á næstu 2-3 mánuðum," segir í hálffimmfréttum Kaupþings.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×