Viðskipti innlent

Jón Ásgeir þriðji áhrifamesti maðurinn í smásölu á Bretlandi

MYND/Vilhelm

Jón Ásgeir Jóhannessson, forstjóri Baugs, er þriðji áhrifamesti maðurinn í smásölu á Bretlandi samkvæmt tímaritinu Retail Week. Blaðið birtir árlega lista yfir áhrifamestu menn í smásölu í landinu og hefur Jón Ásgeir stokkið úr 21. sæti í fyrra í það þriðja í ár.

Sömu menn eru í tveimur efstu sætunum í ár og í fyrra, þeir Sir Terry Leahy, forstjóri stærstu verslanakeðju Bretlands, Tesco, og Stuart Rose, forstjóri Marks og Spencer.

Fram kemur í Retail Week að Jón Ásgeir hafi staðið fyrir enn einu áhlaupinu á breskum markaði í fyrra þegar Baugur keypti keðjurnar House of Fraiser og All Saints. Kaupin á þeirri fyrrnefndu eru þau stærstu í sögu smásölunnar. Þá sameinaði Baugur Mosaic Fashions Rubicon Retail og úr því varð ofurtískufyrirtæki eins og það er orðað í tímaritinu.

Þó er bent á að ekki hafi allt gengið upp hjá Baugi því fyrirtækið MKOne hafi byrjað árið illa og þá hafi samruni Mosaic og Rubicon ekki gengið eins vel og búist hafði verið við.

Í sjötta sæti á listanum er Sir Phillip Green, eigandi Arcadia og fyrrverandi viðskiptafélagi Baugsmanna, og í 22. sæti er Gunnar Sigurðsson, yfirmaður smásölu Baugs.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×