Innlent

Skylt verði að stuðla að jafnrétti í nefndum og stjórnum hins opinbera

Lagt til að í allar nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga verði skylt að tilnefna karl og konu þannig að hlutfall hvors kyns verði ekki minna en 40 prósent samkvæmt nýju frumvarpi að breytingum á Jafnréttislögum.

Það var nefnd undir forystur Guðrúnar Erlendsdóttur, fyrrverandi hæstaréttardómara, sem vann að endurskoðun á jafnréttislögunum í tilefni þess að 30 ár voru liðin í fyrra frá því að lögin tóku gildi.

Þar er einnig lagt til að Jafnréttisstofu verði veittar heimildir til þess að beita opinberar stofnanir, sveitarfélög, atvinnurekendur eða félagasamtök dagsektum ef þau láta ekki af hendi upplýsingar vegna einstakra mála sem rata inn á borð stofunnar.

Fram kemur í tilkynningu frá félagsmálaráðuneytinu að einnig sé lagt til að kærunefnd jafnréttismála fái heimild til að kveða upp bindandi úrskurði, að fjölgað verði í Jafnréttisráði og verkefni þess ákveðin í þingsályktun. Auk þess er lagt til að ráðið taki þátt í undirbúningi jafnréttisþings sem haldið verði á tveggja ára fresti.

Þá gerir frumvarpið ráð fyrir að jafnréttisáætlunum fyrirtækja sem hafa 25 starfsmenn eða fleiri fylgi framkvæmdaáætlun um þau atriði sem vinna skal að til að ná fram jafnrétti kynjanna á vinnustaðnum. Á að endurskoða þessar áætlanir á þriggja ára fresti.

Þá er enn fremur lagt er til að launamanni sé hvenær sem er heimilt að veita þriðja aðila upplýsingar um laun eða önnur starfskjör sín.

Enn fremur vilja frumvarpshöfundar að menntamálaráðherra ráði jafnréttisráðgjafa sem fylgi því eftir að kynjasamþættingar verði gætt við alla stefnumótun og áætlanagerð í skólakerfinu.

Enn fremur er lagt til taka skuli mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starf samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verði annars að komi að gagni í starfinu þegar metið er hvort örðu hvoru kyninu hafi verið mismunað við ráðningu í starf.

Að lokum er lagt til að jafnréttisumsögn fylgi öllum stjórnarfrumvörpum á Alþingi. Er það sagt gott dæmi um kynjasamþættingu í verki.

Frumvarpið og greingargerð með því verða birt á heimasíðu félagsmálaráðuneytisins þar sem hægt er að gera athugasemdir við það.

Frumvarpið má sjá hér að neðan.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×