Viðskipti innlent

Úrvalsvísitalan tók dýfu

Úrvalsvísitala Kauphallarinnar tók dýfu við opnun markaða í morgun. Þá hafa vísitölur um allan heim lækkað. Danska viðskiptablaðið Börsen spáir blóðrauðum degi í dönsku kauphöllinni.

Nú rétt fyrir fréttir hafði Úrvalsvísitala Kauphallarinnar lækkað um 2,34 prósent frá opnun markaða í morgun. Mest hafa bréf í FL-Group lækkað, eða um nær fjögur prósent. Þá hafa bankarnir Kaupþing, Glitnir, Landsbankinn og Straumur-Burðarás allir lækkað um tvö til þrjú og hálft prósent.

Hlutabréf í Danmörku verið í frjálsu falli frá opnun markaða í morgun. Fjárfestar töpuðu tíu milljörðum danskra króna á fyrst tíu mínútunum í morgun þegar vísitalan féll um rúm fjögur prósent. Lækkunin hefur þó að einhverju leiti gengið til baka en sérfræðingar danska viðskiptablaðsins Borsen segja að þetta verði blóðrauður dagur í kauphöllinni. Allar hækkanir sem orðið höfðu það sem af er ári hafa gengið til baka í dönsku kauphöllinni og er staðan nú sú sama og hún var um áramót.

Gengi kínversku hlutabréfavísitölunnar lækkaði um 3,5 prósent en gengi japönsku Nikkei-hlutabréfavísitölunnar lækkaði um 3,4 prósent í dag. Hún hefur ekki lækkað jafn mikið í níu mánuði.

Þá hafa franska CAC-vísitalan og hin þýska DAX sömuleiðis lækkað um tvö prósent það sem af er dags.

Helstu vísitölur lækkuðu talsvert á helstu fjármálamörkuðum jafnt í Asíu, sem í Evrópu og í Bandaríkjunum í síðustu viku. Þar á meðal lækkaði Dow Jones-vísitalan um 4,2 prósent í vikunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×