Viðskipti innlent

Síminn í fallegt hjónaband

Viðskiptin handsöluð Jo Marks hjá Aerofone og Sævar Freyr Þráinsson, framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Símans, handsala kaup Símans á breska fjarskiptafyrirtækinu.
Viðskiptin handsöluð Jo Marks hjá Aerofone og Sævar Freyr Þráinsson, framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Símans, handsala kaup Símans á breska fjarskiptafyrirtækinu.

Síminn hefur keypt að fullu breska símafélagið Aerofone með það fyrir augum að efla þjónustuna við viðskiptavini Símans í Bretlandi.

Hjá Aerofone, sem var stofnað árið 1985, starfa um 50 manns og nemur velta félagsins um 1,6 milljörðum íslenskra króna, samkvæmt upplýsingum frá Símanum.

Sævar Freyr Þráinsson, framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Símans, er nýr stjórnarformaður Aerofone. Með honum í stjórn eru Ásmundur Tryggvason, lögfræðingur hjá Exista, og Þór Jes Þórisson, framkvæmdastjóri tæknisviðs Símans. Jo Marks, fyrrverandi eigandi og einn af stofnendum Aerofone, hefur tekið við starfi framkvæmdastjóra fyrirtækisins.

Síminn er þegar með starfsemi í Bretlandi undir heitinu Síminn UK og Linda Björk Waage, forstöðumaður almannatengsla Símans, segir Aerofone falla vel að þeirri starfsemi. „Þá vantaði kannski frekar tengsl við meira virðisaukandi lausnir og okkur tenginguna inn á markaðinn, þannig að úr varð afskaplega fallegt hjónaband,“ segir hún.

Aðaláherslan í starfsemi Aerofone verður á lítil og meðalstór fyrirtæki. Að sögn Símans hefur fyrirtækið hlotið fjölda tilnefninga og verðlauna fyrir þjónustu sína hjá samtökum breskra símafyrirtækja, Mobile News Awards. Fyrirtækið er staðsett í Bedford.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×