Viðskipti innlent

Þorsteinn nýr forstjóri Opinna kerfa

Þorsteinn G. Gunnarsson hefur verið ráðinn forstjóri Opinna kerfa ehf. frá og með 1. mars. Eftir því sem fram kemur í tilkynningu frá Opnum kerfum tekur Þorsteinn við af Gylfa Árnasyni sem gegnt hefur stöðunni frá júní lokum síðastliðnum.

Gylfi mun helga sig á ný starfi forstjóra Opinna kerfa Group hf. og stjórnarformennsku dótturfélaga Opinna kerfa Group á Íslandi, í Svíþjóð og Danmörku. Þorsteinn Gunnarsson er rafmagnsverkfræðingur frá Háskóla Íslands og með meistarapróf frá University of Washington. Hann hóf störf hjá Opnum kerfum 1996 sem sérfræðingur, síðar þjónustustjóri og nú síðast var hann framkvæmdastjóri ráðgjafar- og þjónustusviðs.

Opin kerfi hófu starfsemi árið 1985 og er félagið dreifingar-, þjónustu- og söluaðili á Íslandi fyrir Hewlett-Packard og fleiri tæknifyrirtæki. Hjá félaginu vinna um 110 manns og árleg velta er um 3,5 milljarðar króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×