Handbolti

Gummersbach og Wilhelmshavener mætast í beinni á Sýn

Róbert Gunnarsson á ferðinni með Gummersbach.
Róbert Gunnarsson á ferðinni með Gummersbach. MYND/AFP

Keppni í þýska handboltanum hefst á nýjan leik eftir heimsmeistaramótið sem lauk um síðustu helgi. Íslendingaliðið Gummersbach mætir Wilhelmshavener og verður leikurinn sýndur beint á Sýn klukkan hálfsjö í kvöld.

Handboltinn í Þýskalandi gat ekki fengið betri auglýsingu en á heimsmeistaramótinu og hápunkturinn var á sunnudaginn þegar Þjóðverjar tryggðu sér heimsmeistaratitlinn.

Fjölmargir þeirra sem léku í keppninni spila með þýskum liðum og það á við um þá um Guðjón Val Sigurðsson, Róbert Gunnarsson og Sverre Jakobsson en þeir spila allir með Gummersbach. Landsliðsþjálfarinn Alfreð Gíslason stjórnar liðinu en fyrrverandi landsliðsmaður, Gylfi Gylfason, spilar með Wilhelmshavener.

Gummersbach er í 4. sæti deildarinnar með 29 stig eins og Hamborg sem er í 3. sæti. Aðeins Kiel og Flensburg eru fyrir ofan Gummersbach, bæðí lið með 31 stig, aðeins tveimur meira en Gummersbach.

Leikurinn hefst klukkan hálfsjö og hann verður sýndur beint á Sýn. Fjölmargir leikir úr þýska handboltanum verða á Sýn á næstu vikum. Á þriðjudagskvöld verður bikarleikur Lemgo og Kiel sýndur beint. Auk þess að sýna beint frá þýska handboltanum verða markaþættir á mánudagskvöldum á Sýn í vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×