Viðskipti innlent

Samanlagður hagnaður bankanna yfir 163 milljarðar

Höfuðstöðvar Kaupþings í Borgartúni.
Höfuðstöðvar Kaupþings í Borgartúni. MYND/Gunnar V. Andrésson

Hagnaður af rekstri Kaupþings banka í fyrra nam röskum 85 milljörðum eftir skatta, sem er 36 milljörðum meiri hagnaður en árið áður. Aldrei hefur íslenskt fyrirtæki hagnast jafnmikið á einu rekstrarári. Samanlagður hagnaður Kaupþings, Glitnis og Landsbankans á síðasta ári nemur rúmum 163 milljörðum króna en allir bankarnir skiluðu metafkomu á síðasta ári.

Kaupþing birti ársuppgjör í morgun. Arðsemi eigin fjár var rösklega 42% og fóru heildareignir bankans yfir 4.000 milljarða króna, eftir 37% aukningu á árinu. Nánari upplýsingar eru í fréttatilkynningu frá Kaupþingi hér að neðan.

Hagnaður Glitnis í fyrra nam rúmlega 38 milljörðum, sem er 19 milljörðum meiri hagnaður en árið áður. Arðsemi eigin fjár var rösklega 39 prósent, eignir jukust um 42 prósent og eru nú 490 milljarðar króna. Hagnaður Landsbankans eftir skatta í fyrra nam rúmum 40 milljörðum, sem var rúmlega 60 prósetna aukning frá fyrra ári.

Hagnaður bankanna þriggja nemur því 163 milljörðum króna í fyrra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×