Viðskipti innlent

Sverja af sér samráð við keppinaut JJB

Lýður Guðmundsson, stjórnarformaður Existu. Mike Ashley kemur ekki nálægt kaupum Hallco 1480 að JJB.
Lýður Guðmundsson, stjórnarformaður Existu. Mike Ashley kemur ekki nálægt kaupum Hallco 1480 að JJB.

Exista og Chris Ronnie, sem stóðu að kaupum á 29 prósenta hlut í íþróttavöruverslanakeðjunni JJB Sports um þarsíðustu helgi, neita því alfarið að Mike Ashley sem fer fyrir Sports Direct, helsta keppinaut JJB, komi nálægt þessum kaupum.

Þetta kemur fram í Observer sem bendir á að fjárfestahópurinn, sem kallast Hallco 1480 ltd., hafi tengsl við Ashley. Exista er stærsti hluthafinn í Kaupþingi sem var Ashley innan handar við yfirtöku á enska Úrvalsdeildarliðinu Newcastle Utd. á dögunum.

Ronnie hefur unnið fyrir Ashley og verður brátt undirmaður Tom Knight, forstjóra JJB. Sá græddi ágætlega á yfirtöku Ashleys á Newcastle Utd. þegar hann seldi 0,75 prósenta hlut.

Exista fór að mörgu leyti ótroðnar slóðir með þessum kaupum, enda hefur félagið ekki fjárfest með þessum hætti í smásölugeiranum. Gengi bréfa í JJB Sports hafði í gærmorgun hækkað um rúm fimm prósent frá kaupunum. Það er þó undir því verði sem Ronnie og Exista greiddu, enda var greitt yfirverð fyrir ráðandi hlut.

Hlutabréf í Sports Direct hafa hins vegar fallið um þrjátíu prósent eftir að félagið var skráð á hlutabréfamarkað í febrúar síðast liðnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×