Handbolti

Einar Hólmgeirsson missir af HM

Einar Hólmgeirsson verður ekki með íslenska landsliðinu á HM síðar í þessum mánuði
Einar Hólmgeirsson verður ekki með íslenska landsliðinu á HM síðar í þessum mánuði NordicPhotos/GettyImages

Stórskyttan Einar Hólmgeirsson hjá þýska úrvalsdeildarliðinu Grosswallstadt verður ekki með íslenska landsliðinu í handknattleik á heimsmeistaramótinu í Þýskalandi síðar í þessum mánuði. Einar er með slitið liðband í þumalfingri og verður frá í þrjá mánuði.

Þetta er gríðarlegt áfall fyrir íslenska landsliðið en Einar Hólmgeirsson er einn af allra bestu sóknarmönnum liðsins. Einar meiddist 30.desember síðastliðinn í leik gegn Kiel. Hann var að reyna skot og fékk varnarmann Kiel á vinstri þumalfingur sinn en atvikið átti sér stað undir lok fyrri háflleiks og var Einar búinn að skora fjögur mörk í leiknum.

Einar hefur verið afskaplega óheppin með meiðsli en hann rotaðist gegn Króötum á síðasta Evrópumóti og lék ekkert meira með á mótinu og þá missti hann einnig af leikjum á síðasta heimsmeistaramóti í Túnis. Einar fer í aðgerð næstu daga og verður væntanlega klár í slaginn eftir tíu til tólf vikur. Einar leikur á næsta tímabili með stórliði Flensburg en hann gerði við þá þriggja ára samning fyrir áramót.

Íslenska landsliðinu er vandi á höndum því Ólafur Stefánsson á enn við meiðsli að stríða í öxl og ólíklegt er að hann verði með liðinu í æfingaleikjum sem framundan eru fyrir heimsmeistaramótið. Hörður Magnússon greindi frá þessu í hádegisfréttum Stöðvar 2 en rætt verður við Einar í kvöldfréttum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×