Viðskipti innlent

Yfirtöku á Actavis að ljúka

Róbert Wessman forstjóri, Björgólfur Thor Björgólfsson stjórnarformaður og Sindri Sindrason stjórnarmaður í Actavis.
Róbert Wessman forstjóri, Björgólfur Thor Björgólfsson stjórnarformaður og Sindri Sindrason stjórnarmaður í Actavis.

Novator, fjárfestingarfélag Björgólfs Thors Björgólfssonar, hefur tryggt sér vilyrði fyrir yfir 90 prósentum hlutafjár í Actavis, að teknu tilliti til eigin hluta og hluta í eigu Novators, að því er fram kemur í tilkynningu félagsins. Með þessu lýkur yfirtökuferli Novators þar sem við 90 prósenta markið verður til söluskylda hjá eftirstandandi hluthöfum. Yfirtökutilboð Actavis hljóðaði upp á 1,075 evrur á hlut.



„Samkvæmt yfirtökutilboði Novator rennur tilboðsfrestur út miðvikudaginn 18. júlí næstkomandi. Þeir hluthafar sem hafa ekki samþykkt tilboðið hafa frest fram til þess tíma til að ganga frá samþykki á grundvelli tilboðsins, að öðrum kosti öðlast þeir ekki rétt til viðbótargreiðslu ef Novator selur hlut sinn innan 12 mánaða,“ segir í tilkynningu félagsins.



Björgólfur Thor Björgólfsson er að vonum feginn að nú sjái fyrir endann á yfirtökuferlinu á Actavis. „Gott er að vera búinn með þetta til að geta einbeitt sér að sókninni,“ segir hann og bætir við að hjá Actavis taki nú við keyrsla á þeirri viðskiptaáætlun sem byggð hafi verið upp undanfarin ár. „Ég vil hins vegar nota tækifærið og þakka hluthöfum sem staðið hafa með okkur í þessari fjárfestingu,“ segir Björgólfur og bendir á að verðmæti Actavis hafi 28-faldast fá árinu 1999. „Þúsundir Íslendinga hafa mokgrætt á þessu. Þeim þakka ég fyrir samferðina, enda hefur verið gaman að taka þátt í þessu.“ -






Fleiri fréttir

Sjá meira


×