Viðskipti innlent

Baugsmenn sagðir ráðgera yfirtöku í Moss Bros

Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóri Baugs Group.
Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóri Baugs Group.

Baugur ráðgerir yfirtökutilboð í bresku fataverslunarkeðjuna Moss Bros, að því er dagblaðið Sunday Times greinir frá í dag. Heimildir blaðsins herma að Baugur muni á næstunni, sennilega í vikunni, leggja fram tilboð upp á 40 milljónir punda, eða rúma fimm milljarða íslenskra króna. Baugur á nú þegar 29 prósenta hlut í félaginu í gegnum fjárfestingafélagið Unity Investments sem er í eigu Baugs og Kevin Stanford.

Verði tilboðið að veruleika kemur það í kjölfar mikillar lækkunar á bréfum Moss Bros sem birtu afkomuviðvörun á dögunum. Moss Bros reka 150 verslanir um allar Bretlandseyjar auk þess sem fyrirtækið rekur verslanir undir merkjum Hugo Boss og Canali.

Baugur hefur frá því fyrr á árinu haft tvo stjórnarmenn í Moss Bros, en fyrirtækið neitaði að tjá sig um hvort fréttir af yfirvofandi yfirtöku ættu við rök að styðjast. Breskir fjölmiðlar hafa gert því skóna að Baugur myndi neyðast til þess að selja hluti sína í félögum á Englandi vegna versnandi stöðu fyrirtækisins en Gunnar Sigurðsson, framkvæmdastjóri Baugs í Bretlandi sagði ekkert hæft í þeim sögusögnum.

Hann segir í samtali við Times að núverandi ástand sé einmitt ákjósanlegt fyrir fyrirtæki á borð við Baug því þá skapist kauptækifæri. „Þegar gengið lækkar eru meiri líkur á því að við stökkvum til og bætum við hlutum í eignasafnið. Þær sögusagnir að við séum í þrengingum og neyðumst til að selja bréf í okkar eigu eru bara bull," segir Gunnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×