Viðskipti innlent

Eimskip losar sig endanlega út úr AAT

Hafþór Hafsteinsson, stjórnarformaður AAT.
Hafþór Hafsteinsson, stjórnarformaður AAT. MYND/GVA

Eimskipafélag Íslands hefur gengið endanlega frá sölu á 49 prósenta hlut sínum í Avion Aircraft Trading til Arctic Partners ehf. sem er meðal annars er í eigu Hafþórs Hafsteinssonar, stjórnarformanns Avion, og Arngríms Jóhannssonar stjórnarmanns.

Arctic kaupir hlutinn á 1,8 milljarða króna og segir í tilkynningu frá Eimskip til Kauphallarinnar að söluhagnaður félagsins sé tæpir 1,6 milljarðar króna. Söluandvirðið verður notað til að greiða niður skuldir Eimskips vegna mikilla fjárfestinga á undanförnum mánuðum í fyrirtækjum á sviði kæli- og frystigeymsla.

Avion Aircraft Trading var að fullu í eigu Eimskips þar til í október 2006 þegar Eimskip seldi sömu aðilum 51 prósents hlut í félaginu. Salan er hluti af þeirri ákvörðun stjórnar Eimskips að selja allar flugrekstrartengdar eignir félagsins en Eimskip reynir nú einnig að selja Atlanta-flugfélagið. Sala á Air Atlanta hf. er í góðu ferli með stjórnendum Air Atlanta og ráðgjöfum sem koma að verkefninu eins og segir í tilkynningu Eimskips.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×