Innlent

Samningur Háskólavalla gegn ótakmarkaðri veðheimild

MYND/GVA

Samningur Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar við Háskólavelli um kaup á fasteignum á gamla varnarsvæðinu fyrir rúma 14 milljarða króna er gegn fullri ótakmarkaðri veðheimild sem þýðir að eigandinn getur veðsett eignina að fullu. Þetta sagði Bjarni Harðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, í umræðum eftir að Geir H. Haarde forsætisráðherra hafði flutt skýrslu um Þróunarfélagið á Alþingi.

Geir fór yfir sögu Þróunarfélagsins og sagði það hafa í höndum mjög stórt verkefni, að koma mannvirkjum á varnarsvæðinu í borgaraleg not. Sagði hann verkið hafa gengið ótrúlega vel og nú væru um 400 manns í vinnu á gamla varnarsvæðinu. Til samanburðar hefðu á bilinu 800-900 manns verið atvinnulausir eftir að herinn hvarf frá Íslandi.

Sagði Geir Þróunarfélaginu hafa í lögum, sem samþykkt voru á Alþingi fyrir ári, verið falið að koma eignunum í verð og gerður hefði verið þjónustusamningur milli Þróunarfélagsins og fjármálaráðherra vegna verkefnanna. Meðal þess sem Þróunarfélaginu hefði verið falið samkvæmt þeim samningi væri að selja eignir á svæðinu. Fullyrðingar um að Ríkiskaup hafi átt að sjá um sölu eignanna væru því hrein fásinna.

Fleiri störf skapast en í tíð varnarliðsins

Geir benti á að Þróunarfélagið væri ekki fasteignafélag heldur félag til að þróa og efla svæði. Á þessu ári hefði fjöldi nýrra starfa skapast á svæðinu og ef vel tækist til myndu fleiri störf skapast en nokkru sinni voru tengd varnarliðinu. Sagði Geir að Þróunarfélagið hefði látið hendur standa fram úr ermum og auglýst eignir á svæðinu og unnið fyrir opnum tjöldum. Því hefði tekist að draga að svæðinu hóp öflugra aðila að uppbyggingu. Nær undantekningalaust hefði hæsta tilboði í eignir verið tekið.

Geir sagði að allar meginreglur um gagnsæi og jafnræði hafi verið virtar við sölu eignanna. Hann sagði hvergi maðk í þessari mysu og það væri ömurlegur leikur að klína þeim áburði á menn á vegum Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar.

Geir vék orðum að þjónustusamningi Þróunarfélagsins og sagði að 100 prósenta söluþóknun sem ætluð var fyrir Þróunarfélagið hefði verið sett inn þar sem ekki hefði búist við að mikið yrði selt af eignum á næstu tveimur árum. Í ljósi þess að 75 prósent eigna hefðu verið seldar á svæðinu fyrir 15,7 milljarðar á þessu ári yrði endursamið um söluþóknun fyrir félagið. Þá sagði hann að hrakspámenn ættu nú að fagna því nægt fé yrði til að hreinsa svæðið eftir veru Bandaríkjahers.

Köngulóin í málinu bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks

Atli Gíslason, þingmaður Vinstri - grænna, sem vakti fyrst athygli á málinu, sagðist hafa verið dreginn á asnaeyrunum í málinu og hann hefði ekki fengið brýnustu gögn um sölu eignanna á gamla varnarliðssvæðinu, þar á meðal upplýsingar um verðmat eigna og og ástæður þess að tilteknir einstaklingar hefðu fengið eignirnar og tengsl þeirra við Sjálfstæðisflokkinn. Atli sagði að eignirnar hefu átt að fara í útboð, það kæmi fram í samningum. Í samþykktum Þróunarfélagsins hefði verið tekið fram að félagið hefði umsjón með sölu eignanna en ekki að það seldi sjálft. Það benti til þess að Ríkiskaup hafi átt að sjá um söluna.

Atli sagði um köngulóarvef að ræða í málinu og köngulóin í þeim vef væru tilteknir sjálfstæðismenn á Suðurnesjum. Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, sæti beggja vegna borðs meðal annars með því að sitja í stjórn Þróunarfélagsins og stjórn Keilis, sem keypt hefði eignir á svæðimi. Þá væri Árni vanhæfur í málinu út frá stjórnsýslulögum með því að selja nátengdum aðilum í bæjarstjórn Reykjanesbæjar eignir á svæðinu í gengum Þróunarfélagið. Nefndi Atli þar Steinþór Jónsson, bæjarfulltrúa í Reykjanesbæ, sem væri einn af aðaleigendum félagsins Base sem hefði keypt eignir á svæðinu.

Þá sagði Atli að 14 milljarðar fyrir um 1700 íbúðir sem Háskólavellir keyptu á svæðinu vera undirverð. Það munaði 15 milljörðum á fermetraverðinu þar og sambærilegum eignum í Reykjanesbæ og verðmæti íbúðanna á vellinum myndi margfaldast í höndum eigenda Háskólavalla.

Atli sagði að safnast hefði að sér mikið af gögnum frá því að hann hafi vakið athygli á málinu. Þá hefði hann fengið fjöldann allan af símtölum frá sjálfstæðismönnum í Reykjanesbæ sem lýst hefðu yfir megnri óánægju sinni með málið. Sagði hann málinu langt í frá lokið af sinni hálfu.

Fara þurfi aftur til Hvamms-Sturlu til að finna önnur eins ættar- og stjórnmálatengsl

Bjarni Harðarson, þingmaður Fransóknarflokksins, sagðist við umræðuna hafa séð samningana sem um ræddi. Þeir hefðu verið sýndir nefndarmönnum í fjárlaganefnd i morgun með kvöðum um trúnað.

Vakið hefði athygli hans að samningarnir hafi verið óundirritaðir. Þá hefði margt merkilegt verið við samningana, þar á meðal sölusamninginn við Háskólavelli. Þar hefðu eignir verið seldar á rúma 14 milljarða með fullri og ótakmarkaðri veðheimild sem þýddi að eigandinn gæti veðsett eignina að fullu. Þá væru afborganir greiddar á næstu þremur árum en þær væru vaxtalausar.

Sagði Bjarni að fara þyrfti aftur til Hvamms-Sturlu til þess að finna eins önnur eins ættartengsl og stjórnmálatengsl í einu máli. Fulltrúar sama stjórnmálaflokksins, Sjálfstæðisflokksins, sætu alls staðar í kringum borðið í þessu máli.

Fleiri þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa tekið til máls og gangrýna málsmeðferðina. Hafa þeira gagnrýnt tengsl margra sjálfstæðismanna við kaupin á gamla varnarsvæðinu.

Forsætisráðherra hafnaði öllum ásökunum um að brögð væru í tafli og sagði það ómerkilegt af hálfu stjórnarandstöðuþingmanna að halda því fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×