Viðskipti innlent

Kaupamet verðbréfa slegið

Nóg að gera hjá miðlurum. Árið 2006 var metár í erlendum verðbréfakaupum.
Nóg að gera hjá miðlurum. Árið 2006 var metár í erlendum verðbréfakaupum.

Árið 2006 var metár í kaupum á erlendum verðbréfum. Þetta kemur fram í gögnum frá Seðlabankanum og segir frá í Morgunkorni Glitnis. Á árinu voru erlend verðbréf keypt fyrir um 146 milljarða króna. Fyrra met féll árið 2005 þegar kaupin námu 123,5 milljörðum króna.

Lífeyrissjóðirnir eiga drjúgan hlut af fjárfestingum í erlendum verðbréfum. Eignir þeirra í erlendum verðbréfum jukust um tæpa 106 milljarða króna á síðasta ári miðað við lok nóvember. Þá nema erlend verðbréf 28,1 prósenti af hreinni eign sjóðanna. Erlend verðbréfaeign innlánsstofnana jókst um 58 prósent á milli áranna 2005 og 2006.

Þrjátíu milljarða króna aukning varð í kaupum á erlendum hlutabréfum milli áranna 2005 og 2006. Hins vegar drógust saman kaup á hlutdeildarskírteinum í erlendum verðbréfasjóðum um 14,4 milljarða. Þá jukust kaup á erlendum skuldabréfum um 7 milljarða króna á milli ára og numu tæpum nítján milljörðum króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×