Viðskipti innlent

Baugur ætlar að gera 50 milljarða króna yfirtökutilboð í Mosaic

Stofnandi samnefndrar keðju á víðfrægri tískusýningu Mosaic í Laugardalnum fyrir tveimur árum.
Stofnandi samnefndrar keðju á víðfrægri tískusýningu Mosaic í Laugardalnum fyrir tveimur árum.

Newco, nýstofnað félag í eigu Baugs Group og fleiri fjárfesta, hefur átt í viðræðum við stjórn Mosaic Fashions um að leggja fram formlegt yfirtökutilboð til hluthafa á næstu vikum og taka félagið úr Kauphöll í kjölfarið -tveimur árum eftir að þetta móðurfélag tískuverslanakeðja á borð við Coast, Karen Millen og Oasis var skráð á markað með pomp og pragt. Tilboðsgengið er 17,5 sem þýðir að markaðsvirði Mosaic er um 51 milljarður króna.

Baugur, sem er stærsti hluthafinn með 37 prósenta hlut, leiddi hóp fjárfesta sem skráðu félagið í Kauphöllina sumarið 2005 að undangengnu hlutafjárútboði til annarra fjárfesta.

Gunnar Sigurðsson, framkvæmdastjóri hjá Baugi í Bretlandi, er þeirrar skoðunar að þetta sé rétta skrefið fyrir fyrirtækið í ljósi þeirra breytinga sem hafa átt sér stað á rekstri Mosaic og áformin feli ekki í sér uppgjöf. „Við töldum það vera hárréttan tímapunkt í lífi Mosaic Fashions að skrá það á markað fyrir tveimur árum. Mosaic hefur breyst mjög eftir kaupin á Rubicon í fyrra og talsverð samþættingarvinna er fram undan sem felur í sér fjárfestingar og uppbyggingu merkja." Kaupin á Rubicon stækkuðu Mosaic töluvert og gerðu það jafnframt skuldsettara en gengur og gerist með skráð fyrirtæki, sérstaklega þegar horft er til breska markaðarins.

„Við teljum í fyrsta lagi að það sé auðveldara fyrir fyrirtæki að vera ekki skráð á þeim tíma sem það fer í gegnum þær breytingar og í öðru lagi höldum við að það tilboð sem við erum að leggja fram sé í rauninni mjög gott fyrir hluthafana," segir Gunnar.

Væntanlegt tilboð er tæplega 30 prósentum yfir útboðsgengi félagsins þegar það fór á markað og um tólf prósentum yfir meðalgengi síðustu þriggja mánaða. Margir hafa verið ósáttir með verðþróun á fyrirtækinu, sem rekur 1.853 búðir í 26 löndum, og telja Mosaic vanmetið. Gunnar bendir á að tilboðið miðist við að greiddur sé um það bil nífaldur rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) sem er ekki lágt verð þegar haft er í huga að rekstrarniðurstaða í fyrra var undir væntingum. „Ef við náum að klára þennan feril þá teljum við að þetta sé sanngjarnt verð fyrir hluthafa."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×