Viðskipti innlent

Straumur Burðarás hagnast um 6 milljarða á fyrsta ársfjórðungi

Frá hluthafafundi Straums Burðaráss í júlí í fyrra.
Frá hluthafafundi Straums Burðaráss í júlí í fyrra. MYND/HH

Hagnaður fjárfestingarbankans Straums Burðaráss eftir skatta nam um 6 milljörðum króna á fyrstu þremur mánuðum þessa árs. Þetta kemur fram í afkomutilkynningu bankans. Á sama tíma í fyrra nam hagnaður bankans um 19 milljörðum. Bankinn birti nú í fyrsta skipti afkomutilkynningu sína í evrum.

Fram kemur í tilkynningu bankans að það sem helst skýri þennan mikla mun á hagnaði milli ára sé að í fyrra hafi bankinn selt 21,05 prósent hlut sinn í Glitni, áður Íslandsbanka.

Hreinar tekjur bankans á fyrsta ársfjórðungi námu um átta milljörðum íslenskra króna og þar af hreinar vaxta- og þóknunartekjur 3,6 milljörðum.

Rekstrarkostnaður á fyrstu þremur mánuðum ársins nam 1,3 milljarði króna en á sama tímabili í fyrra var hann rétt rúmur milljarður.

Heildareignir bankans í lok síðasta mánaðar voru um 45 milljarðar og jukust um átta milljarða milli tímabila.

Í tilkynningunni er ennfremur haft eftir Friðriki Jóhannssyni, forstjóra bankans, að færslan yfir í evrur hafi gengið að óskum. Stefnt sé að því að auka þóknunartekjur bankans og að fyrstu þrír mánuðir þessa árs í séu samræmi við stefnu bankans og markmið. „Við ætlum okkur að vaxa af krafti á þessu ári; á Norðurlöndum, Bretlandseyjum og þar sem vænleg tækifæri bjóðast í Evrópu."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×