Viðskipti innlent

Sævar selur eftir þrjátíu ár

Klæðskerinn góðkunni hefur ákveðið að selja verslun sína eftir rúmlega þriggja áratuga rekstur.
Klæðskerinn góðkunni hefur ákveðið að selja verslun sína eftir rúmlega þriggja áratuga rekstur.

Sævar Karl Ólason og Erla Þórarinsdóttir hafa ákveðið að selja tískuverslun sína við Bankastræti eftir þrjátíu og tveggja ára rekstur.

Samkvæmt heimildum Markaðarins geta þau hjón valið úr nokkrum tilboðum og fara sér að engu óðslega. Líklegt er þó að salan verði frágengin innan nokkurra daga.



Ætla má að Sævar Karl verði nýjum eigendum innan handar fyrst um sinn, enda byggist verslunin á áralöngu sambandi við birgja og tískuhús úti í heimi. Panta þarf vörur með löngum fyrirvara og liggja nú þegar fyrir áætlanir til næstu tólf mánaða.



Aðspurður vildi Sævar ekki gefa upp væntanlega kaupendur í samtali við Markaðinn. „Ég get alveg sagt ykkur að Baugur er ekki meðal þeirra sem sýnt hafa versluninni áhuga.“



Fyrirtækið byggist á gömlum grunni. Sævar stofnaði klæðskeraverkstæði í Reykjavík árið 1974 og keypti árið eftir fyrirtækið Vigfús Guðbrandsson og Co. sem stofnað var árið 1922. Þannig má segja að verslun Sævars Karls eigi sér áttatíu og fimm ára sögu í einni eða annarri mynd.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×