Viðskipti innlent

Erfiðir tímar víða á landsbyggðinni

Hafliði Helgason skrifar,

Því er stundum haldið á lofti að ein höfuðástæða þess að Íslendingar þurfi sérstakan gjaldmiðil sé sú að hagsveiflan hér á landi sé svo ólík þeirri í Evrópu. Þessu hefur verið svarað með því að benda á að hag­sveifla hér á landi myndi að öllum líkindum laga sig að þeirri evrópsku væri hér sami gjaldmiðill.



Að hinu hafa færri hugað að hér á landi er varla hægt að tala um að allt landið sé í sömu hagsveiflu. Þannig er ljóst að þensla undanfarinna ára, með háu vaxtastigi og sterku gengi krónunnar hefur komið hart niður á svæðum þar sem smá fyrirtæki í sjávarútvegi eru uppistaða atvinnulífsins. Hagvaxtarmælingar sýna glöggt að til að mynda Vestfirðir hafa ekki notið hagvaxtar meðan suðvesturhornið og Austfirðir hafa notið mikils hagvaxtar og eignamyndunar.



Í því ljósi er skiljanlegt að fjármunir séu settir í samgöngur á slíkum svæðum þegar byggðirnar verða fyrir áfalli líkt og því sem niðurskurður aflaheimilda er fyrir þær. Samtök atvinnnulífsins hafa bent á að bestu mótvægisaðgerðirnar felist í lægra gengi á krónunni. Háir stýrivextir eru helsta ástæða gengisins og því beinist ábendingin að lægri vöxtum og þar með lægra gengi. Þetta er réttmæt ábending og ljóst að aðlögun hagkerfisins eftir þensluna er brýn. Langvarandi hágengis- og hávaxtatímabil mun drepa bæði nýgræðing og jafnvel vænleg fyrirtæki sem þegar eru komin á legg.



Hinu ber að taka með meiri varúð sem SA bendir á, en það er að forsendur séu nú fyrir lægri stýrivöxtum. Líklegast er að Seðlabankinn hefji lækkun á fyrri hluta næsta árs. Fyrr verður það varla. Það er athyglisvert að á sama tíma og þrýst er á Seðlabankann um að lækka vexti eru fyrstu vísbendingar að koma fram um áhrif lækkunar virðisaukaskatts á matvæli. Þar virðist raungerast sú skólabókarhagfræði að lækkun neysluskatts í bullandi þenslu skili sér illa til neytenda. Þegar árar eins og gert hefur undanfarin misseri er það höfuðverkefni stjórnvalda að taka helst alla þá fjármuni sem tök eru á út úr hringrás hagkerfisins. Skattalækkanir, hverju nafni sem þær nefnast, fara beint inn í þá hringrás aftur og viðhalda þensluástandi með tilheyrandi svigrúmi til að hleypa bróðurparti allra vandamála í rekstri fyrirtækja, beint út í verðlagið.



Það er því mikilvægt að þegar verkefni eins og þau sem boðuð eru til að mæta erfiðleikum á landsbyggðinni eru sett á stað, sé aðhalds gætt á öðrum sviðum. Að öðrum kosti seinka menn tíma vaxtalækkana með tilheyrandi skipbroti þeirra sem veikast standa.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×