Viðskipti innlent

Næstbestir í Sviss

Kepler Landsbanki, dótturfyrirtæki Landsbankans, er næstbesti greiningaraðili fyrir stærri fyrirtækin á svissneska hlutabréfamarkaðnum árið 2007, samkvæmt úttekt svissneska fjármáladagblaðsins Finanz und Wirtschaft, Félags fjármálagreinenda í Sviss og alþjóðlega upplýsingafyrirtækisins Thomson.



Könnunin raðar greiningardeildum eftir árangri. Ávöxtun þeirra bréfa sem deildirnar mæltu með var borin saman við ávöxtun á markaðnum að teknu tilliti til áhættu.



Bank Sarasin og Cie varð í fyrsta sæti í könnuninni og Drendner Kleinwort Wasserstein í því þriðja. Fjárfestingabankarnir UBS og Citigroup urðu í fjórða og fimmta sæti.



„Landsbankinn og dótturfélög eru með eina umfangsmestu greiningardeild á evrópska hlutabréfamarkaðnum. Þær viðurkenningar sem við höfum hlotið að undanförnu eru mikilvæg staðfesting á sterkri stöðu Landsbankans á þessum alþjóðlegu mörkuðum", sagði Sigurjón Árnason, annar bankastjóra Landsbankans.



Landsbanki Kepler fékk viðurkenningu síðastliðinn vetur frá fjármálatímaritinu Bloomberg Magazine fyrir að vera það evrópska hlutabréfafyrirtæki sem veitir bestar ráðleggingar. Þá hlaut greiningardeild félagsins í Frakklandi viðurkenningu í könnun rannsóknarfyrirtækisins StarMine.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×