Viðskipti innlent

Jón Karl að hætta sem forstjóri Icelandair

Jón Karl Ólafsson er að láta af störfum sem forstjóri Icelandair. Orðrómur er um að Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandic Group og formaður Landssambands íslenskra útvegsmanna, taki við.

Samkvæmt heimildum Stöðvar tvö ákváðu helstu eigendur félagsins í gær að skipta um forstjóra og víkja Jóni Karli Ólafssyni úr starfi. Hvorki hefur náðst í Jón Karl í morgun né Gunnlaug Sigmundsson, stjórnarformann.

Úr höfuðstöðvum félagsins á Reykjavíkurflugvelli fást engin svör um málið og þegar leitað var eftir stjórnarmönnum fengust þau svör að þeir sætu saman á fundi í stjórnarherbergi félagsins.

Orðrómur um yfirvofandi brottrekstur Jóns Karls hefur reyndar blossað upp af og til allt þetta ár, síðast í september þegar athygli vakti að hans var ekki getið í nýju skipuriti sem sent var Kauphöll. Það útskýrði Jón Karl svo fyrir þremur mánuðum.

Orðrómur er um að Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandic Group og formaður Landssambands íslenskra útvegsmanna, taki við forstjórastarfinu hjá Icelandair.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×